Wednesday, March 26, 2014

Mfl. kv. ÍR Handbolta Deildarmeistarar utand. kv. 2013-2014

Það var eftirvænting í Austurbergi í gær þegar síðasti heimaleikur kvenna í meistaraflokki ÍR í utandeildinni var flautaður  á.  Það vissu allir hvað tæki við eftir leikinn. Það var búið að gull-tryggja þetta fyrir löngu,  en það er sætara að lyfta bikar á heimavelli!!!

Leikurinn byrjaði af krafti og það mátti sjá að stelpurnar ætluðu sér að fagna árangri vetursins með sigri bæði fyrir sig sjálfar og okkur sem vorum mætt til að fá að fagna með þeim. 

Varamannabekkurinn var þétt setinn enda engin furða, það er stór hópur sem á þátt í því sigra deildina í vetur. Árangur sem telur 15 sigra og 3 töp frá október til loka mars. Þó svo að Grótta sé í öðru sæti í deildinni sáu þær aldrei til sólar í þessum leik.    Áhorfendabekkirnir voru vel setnir og strákarnir úr meistaraflokki karla voru áfram í húsinu eftir æfinguna sína og fylgdust með. 

Finnbogi fór með liðið sitt inn í klefa í hálfleik einbeittar, með þægilegt forskot. Það virtist taka liðið nokkrar mínútur eftir hálfleik að átta sig á því að Brynhildur og Sigrún voru ekki með enda farnar á landsliðsæfingu með U18 og það var fyrst á sjöundu mínútu sem fyrsta markið kom. 

Hildur raðaði svo inn nokkrum úr hraðaupphlaupum og þá small þetta í gang og mörkunum rigndi úr öllum áttum.   ÍR mörk kvöldsins urðu að lokum á fjórða tuginn enda var staðið í stúkunni og það var klappað fyrir hetjum kvöldsins.    

Það var gaman að sjá þegar sigurdansinn var stiginn í lok leiks því þá fjölgaði í hópi sigurvegaranna.  Það voru mömmustrákar og mömmustelpur sem „loksins“ sjá fyrir endan á þessum vetri.  Ég get mér þess til að fögnuður þeirra hafi verið af öðrum toga en að sjá bikar á lofti, allavega í bland.  Nú fer að vora og svo kemur sumar. Á sumrin eru ekki æfingar á „hverju einasta kvöldi“ hjá mömmu!!!

En það er ástríðan, áhuginn, einbeitni og dugnaður sem skilar árangri.   Það kostar fórnir en svo kemur uppskeran og hún var sæt í gær enda var Róbert Gíslason mættur frá HSÍ með bikarinn góða og hann fór svo sannarlega á loft við mikil fagnaðarlæti allra í húsinu.  

Undirheimar iðuðu af lífi fram eftir kvöldi enda þurfti að ræða nokkra dóma úr leiknum, fara yfir þetta allt saman og renna niður nokkrum Subway bitum og snúðum.   Flott kvöld hjá flottum hópi sem ég trúi þó að sé ekki alveg búinn að klára veturinn.  Því þann 4. og 5. Apríl verður dæmið klárað og smiðshöggið rekið á veturinn þegar úrslitakeppnin fer fram.

Stelpur – þið voruð okkur áhorfendum, okkur í heimaleikjaráði og öðrum sem að starfinu koma til mikils sóma í kvöld og ekki síst ykkur sjálfum. 

Það er á svona kvöldum sem við sjálfboðaliðar sem stöndum vaktina leik eftir leik minnumst þess til hvers leikurinn er gerður og hvað sigurinn er sætur.

Heimaleikjaráð handknattleiksdeildar ÍR


Myndir frá kvöldinu má sjá á facebook ÍR Handbolta
 https://www.facebook.com/media/set/?set=a.796089940402403.1073741935.241454399199296&type=1

Mfl. kv. ÍR Handbolta Deildarmeistarar utand. kv. 2013-2014

No comments:

Post a Comment