Friday, March 28, 2014

Okkur er hollt að líta í eigin barm og læra af því

 Klassa stemning. Það heyrðist mest í okkar áhorfendum. Það er góður mórall í liðinu og það er gaman þegar vel gengur,"  þetta var sagt í viðtali á Vísi eftir leik ÍR og ÍBV í Austurberginu í gær enda hafði leikurinn allt til þess að bera til að vera góður og spennandi leikur. 

En fannst ÍR-ingum þessi leikur skemmtun?  Er viðtalið við ÍR-ing ?  Bjarka ? Stulla fyrirliða ? Guðna eða Jón Kristinn sem áttu stórfínan leik að öðrum ólöstuðum ?

Nei,  viðtalið er við leikmann liðs sem þarf að treysta á stuðningsfólk sem býr í ýmist siglinga eða flug færi við Austurberg,  en það sem Róbert Aron Hostert segir í viðtalinu er hárrrétt.    Það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir áhorfendum ÍBV í gær.  Þeir stóðu sig með prýði – og leikmenn þeirra líka. 

Ef við skoðum okkar hlut er hollast að líta fyrst í eigin barm áður en leitað er skýringa annað þegar illa gengur og bjátar á. 

Eigum við að byrja á því með nokkrum spurningum til okkar sem komum að undirbúning leikja.

  •      Var sjoppan opin ? 
  •     Var kaffið í Undirheimum í hálfleik og eftir leik?  
  •     Var búið að smyrja og skera niður og gera klárt ? 
  •     Komu ávextir inn í klefa?   
  •    Var búið að skipuleggja og stjórna ungum aðdáendum ykkar strákar til að „leiða inn á“?   
  •     Voru 10 manns í gulum vestum að gæta þess að allt færi vel fram á meðan á leik stóð og eftir leik ? 
  •     Voru kynnarnir mættir með tónlist og læti?   
  •     Var búið að setja flottu varamannabekkina á sinn stað fyrir leik ? 

Ummmm..... .já þetta var víst allt klárt og miklu meira til, því það var víst einhver hópur búinn að græja þetta allt saman,   því þessi hópur hlýtur bara að hafa svona svakalega gaman af þessu að hann mætir bara alltaf!!!!

Eða hvað, er það svo?   Já það er svo,   þótt ótrúlegt megi virðast strákar þá erum við alltaf til staðar,  bæði þegar vel gengur og líka þegar illa gengur.       Við sjáum til þess að leikurinn fari fram eins og vera ber og af honum sé sómi fyrir ÍR og vonandi ykkur.  

En hvað með áhorfendur,   koma þeir líka „bara alltaf“ og tromma og djöflast ? 

Neeee……..ei.  Það gera þeir ekki.    Þeir velja og hafna,  flestir í öllu falli.   Þeir velja frekar það sem er skemmtilegt umfram það sem er minna skemmtilegt. 

Og áhorfendur eru ekki að mæta til þess að sjá 14 stráka hlaupa fram og til baka og kasta bolta á milli sín og skammast í sjálfum sér,   félögum sínum eða dómurum.     Þeir eru að koma til að styðja SITT lið,  Strákana SÍNA. 

En eruð þið strákarnir þeirra sem standa vaktina?   Eruð þið strákarnir þeirra sem eru í stúkunni?  Eða eruð þið nokkrar stjörnur eða prinsessur sem skiljið ekkert í því að það fækkar og fækkar í stúkunni,  leik eftir leik? 

Skiljið ekkert í því að trommurnar eru þagnaðar,  klappið líka.     Skiljið ekkert í því hvernig stendur á því að Róbert getur með góðri samvisku sagt að meira hafi heyrst í áhorfendum ÍBV en áhorfendum ÍR í AUSTURBERGINU YKKAR?

Þið leikmenn ÍR mættuð spyrja ykkur eftirfarandi spurninga hér að neðan og pæla aðeins í þeim  hver fyrir sig og jafnvel allir saman.

  •        Hversu margir af ykkur fögnuðu sýnilega og innilega þegar þeir skoruðu í leiknum ?
  •          Hversu margir af ykkur fögnuðu sýnilega og innilega þegar annar ÍR – ingur skoraði í leiknum?
  •          Hversu margir af ykkur klöppuðu fyrir áhorfendum í lok leiks fyrir að koma á leikinn ?   
  •          Hversu margir af ykkur komu niður í Undirheima eftir leik og fengu sér að borða með okkur ?
  •          Hversu margir af ykkur hafa tekið í höndina á einum eða fleirum af þeim sem eru í „gulu vestunum“ í vetur og sagt „takk fyrir standa í þessu með okkur“ ?   
  •          Hversu margir af ykkur hlupu meðfram stúkunni og lyftu upp stemningunni í leiknum – „bara smá pepp“ til að ná áhorfendum af stað?
  •          Hversu margir af ykkur reyndu að fá stúkuna til að klappa með því að byrja sjálfir sitjandi á flotta varamannabekknum til að ná áhorfendum í gang?
  •          Hversu margir af ykkur hafa sagt „takk strákar og stelpur í 2-4 flokk fyrir að tromma fyrir okkur á leikjunum í vetur“ ?
  •          Hversu margir af ykkur hafa þakkað „bara einhverjum“ fyrir umgjörðina og stuðninginn á Bikarhelginni?

Það komu nokkrir af ykkur í Undirheima eftir leik í gær til að ræða málin.   Jón Kristinn, Kristófer, Jón Heiðar og Gumma Páls.   Kannski voru fleiri, þið vitið það betur en við.    Þúsund þakkir til ykkar sem mættuð og létuð sjá ykkur, okkur þykir vænt um það. 

En strákar,  við gerum enga kröfum um sigur, enda erum við enn til staðar þrátt fyrir 11 töp í deildinni í vetur.  Þið verðið hinsvegar að fara að gera ykkur grein fyrir því að það eru aðalleikararnir sem stýra stemningunni ,  og  hvort sem ykkur líkar það betur eða verr þá eruð það þið sem eru í þeim sporum og vonandi verða svörin við öllum spurningunum hér að ofan „Já“ í næsta leik.


Kveðja
Heimaleikjaráð ÍR Handbolta













No comments:

Post a Comment