Sunday, May 4, 2014

Úrslitadagur yngri flokkanna í Austurberg

Um helgina fóru fram úrslitaleikir Íslandsmóts í yngri flokkunum í handboltanum í Austurbergi. Umgjörðin var til fyrirmyndar og á unglingráð Handknattleiksdeildar ÍR, sjálfboðaliðar, starfsfólk HSÍ, dómarar, áhorfendur og aðrir þeir sem komu að þessum degi þakkir skilið.

Frábært að sjá allt að 800 áhorfendur á sumum leikjum sem er meira en mörg úrvalsdeildarlið geta státað af og virkilega skemmtilegt framtak að sýna leikina beint á SportTV fyrir handboltaáhugafólk sem komst ekki í Austurberg.

Það sýndi sig að Austurberg er frábært handknattleikshús bæði fyrir áhorfendur og leikmenn enda var frábær stemning þar allan daginn.  Glæsilegir fulltrúar yngri kynnslóðarinnar lögðu sig alla fram á vellinum, enda Íslandsmeistaratitill í húfi sem stefnt hefur verið að allt tímabilið.

Óhætt er að segja að flestir leikirnir hafi verið virkilega spennandi enda fóru nokkrir þeirra í framlengingu, þar sem úrslit skiluðu sér ekki fyrr en á seinustu sekúndu.  

Fögnuður, vonbrigði og allur tilfinningaskalinn kom síðan í ljós þegar leiktíminn var úti og í ljós kom hver hafði orðið Íslandsmeistari í sínum aldursflokk.

Við óskum öllum iðkendum sem komu til okkar í dag innilega til hamingju með árangurinn, enda geta þeir svo sannarlega borið höfuðið hátt að komast alla leið í úrslitaleikinn í Íslandsmótinu og  fengið  að upplifa það sem alla dreymir um, að spila úrslitaleik á stóra sviðinu fyrir fullu húsi af stuðningsmönnum.   Það er ljóst að framtíð handboltans er björt á Íslandi og virkilega ánægjulegt að geta sagt í leikslok að allir hafi verið félagi sínu til mikils sóma í dag.

Komnar inn myndir frá deginum á Facebook ÍR Handbolta


Kv. ÍR Handbolti

No comments:

Post a Comment